Jafnréttis- og jafnlaunastefna 2021-2024
Stefna Borgarverks í jafnréttis og jafnlaunamálum er að unnið sé markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan vinnustaðarins. Jafnréttisáætlunin er sett fram samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna og annarra laga og reglna er snúa að jafnrétti. Markmið stefnunnar er að starfsfólk njóti sömu launa og kjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf, óháð kyni, þjóðerni, trúarbrögðum eða öðrum þáttum samkvæmt lögum nr.150/2020, og öðrum lögum og kröfum er snúa að jafnrétti.
Borgarverk hefur gert áætlun í jafnréttismálum til þriggja ára sem miðar að því að ná og viðhalda þeim markmiðum sem sett eru fram í jafnréttis- og jafnlaunastefnunni. Stjórnendur skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.
Unnið verður að stöðugum umbótum á stefnum þessum, þeim fylgt eftir og brugðist við ef ástæða er til. Endurskoðun fer reglulega fram, ekki sjaldnar en einu sinni á ári í tengslum við yfirferð á jafnlaunakerfinu er tengist jafnlaunavottun. Mikilvægt er að markmið og aðgerðaráætlanir séu í samræmi við daglegt starf Borgarverks. Jafnréttis- og jafnlaunastefnan gildir fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins. Jafnréttisáætlun Borgarverks gildir til lok árs 2024.
Hér að neðan eru lykil atriði jafnréttis- og jafnlaunastefnu Borgarverks:
Launajafnrétti
Allt starfsfólk skal njóta sömu launa og kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.
Ráðningar
Borgarverk leitar hæfustu starfsmanna hverju sinni. Unnið er eftir faglegu ráðningarferli þar sem hæfniskröfur eru skilgreindar. Starf sem laust er til umsóknar skal standa öllum opið, óháð kyni, þjóðerni, trúarbrögðum eða öðrum þáttum.
Starfsþjálfun og endurmenntun
Borgarverk leggur áherslu á að starfsþjálfun og endurmenntun standi öllu starfsfólki til boða.
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Lögð er áherslu á að starfsfólk geti samræmt vinnutíma og fjölskyldulíf eins og kostur er. Starfsfólki skal auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.
Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum. Starfsfólk fær árlega kynningu á forvörnum og viðbrögðum gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni.
Jafnréttisáætlun var samþykkt af Jafnréttisstofu 22.11.2021
Stjórnendur samþykktu Jafnréttisáætlun 13.9.2022