Verktakafyrirtækið Borgarverk ehf. var stofnað í Borgarnesi þann 14. janúar 1974 og er meðal þeirra elstu á verktakamarkaði á Íslandi. Aðdragandann að stofnun fyrirtækisins má rekja allt aftur til ársins 1955 en það ár hóf Sigvaldi Arason verktakastarfsemi í eigin nafni sem gerði út frá Borgarnesi. Frá árinu 2005 var fyrirtækið í meirihluta eigu Óskars Sigvaldasonar og Kristins Sigvaldasonar og önnuðust þeir allan daglegan rekstur. Frá árinu 2023 hefur félagið alfarið verið í eigu Kristins Sigvaldasonar. Árið 2014 keypti Borgarverk hluta úr Ræktunarsambandi Flóa- og Skeiðamanna og er því með aðra starfsstöð á Selfossi. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgarnesi en auk starfsstöðvarinnar á Selfossi er fyrirtækið með skrifstofu í Mosfellsbæ.

Borgarverk hefur frá fyrstu tíð stundað almenn verktakastörf á sviði jarðvinnslu en frá árinu 1982 hefur fyrirtækið sérhæft sig í vegaframkvæmdum. Malbikun og slitlagslögn, viðhald og nýlagnir eru fyrirferðamestu þættirnir. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti síðustu árin og verkefnum fjölgað stöðugt. Starfsmannafjöldinn er breytilegur, allt eftir verkefnum, en yfir sumartímann eru starfsmenn rúmlega 130 talsins.